Lög nemendafélags Framhaldsskólans í Mosfellsbæ

 


1. Almenn ákvæði

 

1.1.Nafn félagsins er Nemendafélag Framhaldskólans í Mosfellsbæ (NFFMOS)

1.2. Heimili þess og varnarþing er í Mosfellsbæ.

1.3.Tilgangur félagsins er að gæta sameiginlegra hagsmuna félagsmanna sinna og virkja þá í félagsstarfsemi innan skólans.  Félagið starfar á lýðræðislegum grundvelli.

1.4. Félagsmenn NFFMOS eru allir skráðir nemendur Framhaldskólans í Mosfellsbæ og greiða tilskilin félagsgjöld.

1.5. Í atkvæðagreiðslum innan NFFMOS skal einfaldur meirihluti ráða nema annað sé tekið fram í lögum. Standi atkvæði á jöfnu skal tillagan felld.

1.6. Allir félagsfundir innan NFFMOS skulu opnir öllum félagsmönnum þess.

1.7. Meðlimir stjórna og nefnda innan NFFMOS fá ekki greitt í peningum fyrir starfsemi í þágu félagsins.

1.8. Ef Framhaldsskólinn hættir störfum af einhverjum ástæðum leggst félagið af. Einnig er hægt að leggja niður félagið á skólafundi skv. grein 5.1.6.

1.9. Stjórn NFFMOS hefur fulla yfirumsjón með nemendarýminu.


2. Stjórnskipan


2.1 Stjórn NFFMOS.

2.1.1. Stjórn NFFMOS er skipuð formanni, gjaldkera og varaformanni. Þeir einir hafa atkvæðisrétt innan stjórnar NFFMOS.

2.1.2. Formaður skal koma fram sem fulltrúi NFFMOS gagnvart aðilum utan skóla sem innan. Hann skal leitast við að efla einingu félagsmanna NFFMOS og stuðla að öflugu og fjölbreyttu félagslífi. Formaður skal sitja sem formaður lagabreytinganefndar. Formaður hefur rétt til að fylla inn í lausar stöður innan nemendaráðs.

2.1.3. Gjaldkeri annast markaðsmál NFFMOS. Hann skal hafður með í ráðum félaga og ráða innan vébanda NFFMOS hvað varðar markaðsmál og fjárhag þeirra. Þá hefur gjaldkeri ásamt tengiliði skólanns yfirumsjón með öllum fjármálum og reikningum á vegum NFFMOS.

2.1.4 Varaformaður er talsmaður félaga í stjórn NFFMOS og gætir hagsmuna þeirra þar. Hann skal ávallt setja sig það vel inní mál hverju sinni að hann sé hæfur til að taka við af formanni í forföllum.


3. Félög og ráð


3.1. Innan NFFMOS starfar stjórn, skemmtinefnd, íþróttanefnd, listanefnd, fjölmiðlanefnd og hagsmunaráð. Hver nefnd er með sitt starfsvið og skal velja úr sínum hópi formann, svo meira skipulag verði á vinnu nefndanna. Nemendaráð getur að höfðu samráði við skólayfirvöld stofnað nýjar nefndir á meðan skólinn er enn vaxandi.

3.1.1. Nemendaráð getur að höfðu samráði við viðkomandi nefndir ávítt óvirka nefndarmenn. Ef ávítur skila ekki tilætluðum árangri er hægt að víkja viðkomandi úr nefndinni ef meirihluti atkvæða er fyrir því í nemendaráði. Mótmæla má brottvikningu skv. gr. 6.12

 

3.2. Skemmtinefnd:  

3.2.1. Skemmtinefnd er skipuð þremur til sex fulltrúum kosnum í einstaklingskosningu í vorkosningum.

3.2.2. Skemmtinefnd velur sér formann í samráði við stjórn NFFMOS. Hann einn skal hafa umsjón með fjármálum ráðsins í samvinnu við gjaldkera NFFMOS.

3.2.3. Skemmtinefnd skipuleggur og sér um dansleiki á vegum NFFMOS. Hún sér einnig um skipulagningu árshátíðar í samráði við stjórn félagsins. Allar skuldbindingar skemmtinefndar skulu samþykktar af stjórn félagsins. Skemmtinefnd ber að stuðla að sem flestum skemmtikvöldum og skemmtilegum uppákomum.

3.2.4. Til að sem flestir félagsmenn NFFMOS skemmti sér og öðrum sem mest, skal skemmtinefnd halda uppi sem öflugustu félagslífi, en halda því innan hinna almennu velsæmismarka. Allar skemmtanir á vegum NFFMOS skulu vera áfengis- og vímuefnalausar.

 

3.3. Fjölmiðlanefnd:

3.3.1. Fjölmiðlanefnd er skipuð fjórum til sex fulltrúum kosnum í einstaklingskosningu í vorkosningum.

3.3.2. Fjölmiðlanefnd skal halda uppi vefsetri nemendafélagsins, www.nffmos.is, og sjá um að uppfæra hana reglulega.

3.3.3. Fjölmiðlanefnd sér um að mynda og fjalla um sem flesta viðburði á vegum  nemendafélagsins. Fjölmiðlanefnd útbýr árshátíðarannál. Útgáfa skólablaðs er í höndum fjölmiðlanefndar.

 

3.4. Íþróttanefnd:

3.4.1. Íþróttanefnd er skipuð þremur til sex fulltrúum kosnum einstaklingskosningu í vorkosningum.

3.4.2. Íþróttanefnd hefur yfirumsjón með íþróttastarfsemi á vegum NFFMOS. Hún skal annast skipulagningu og umsjón íþróttamóta, og sjá um að útvega íþróttahúsnæði fyrir félagsmenn NFFMOS. Íþróttanefnd skal halda uppi tengslum við íþróttafélög annarra skóla.

 

3.5. Listanefnd:

3.5.1. Listanefnd er skipuð fjórum til sex fulltrúum kosnum í einstaklingskosningu í vorkosningum.

3.5.2. Listanefnd hefur yfirumsjón um allt sem tengist listum á vegum NFFFMOS. Hún annast skipulagninu söngvakeppna, skipulagningu hönnunarsýningu og myndlistarsýningar. Skipuleggja viðburði í miðjuni sem tengjast list. Listanefnd skal einnig sjá um leiklistarfélag skólans.

 

3.6. Hagsmunaráð:

3.6.1. Tilgangur Hagsmunaráðs er að vernda og bæta hagsmuni nemenda skólans. Nemendur skólans eiga að vera upplýstir um Hagsmunaráð og vera með augljósar upplýsingar um hvernig á að hafa samband við ráðið. Hagsmunaráð skal heyra undir formanni nemendafélags og skila inn fundarskýrslum til hans eigi seinna en þremur dögum eftir fundarslit. Hagsmunaráð gegnir engum öðrum skyldum en að vernda og bæta hagsmuni nemenda NFFMOS.

3.6.2. Nemendur hafa rétt á að bera kvartanir um skólann eða nemendafélagið til Hagsmunaráðs og ráðið á að reyna af sinni bestu getu að leysa sagt vandamál til að vernda hagsmuni nemenda.

3.6.3. Í Hagsmunaráði sitja formaður, varaformaður, lýðræðisfulltrúi og þrír hagsmunaráðsfulltrúar fyrir bóklegt nám, lista nám og verklegt nám

3.6.4. Formaður Hagsmunaráðs skal vera fundarstjóri á Hagsmunaráðs fundum og skal tala fyrir hönd allra hagsmunafulltrúa í öllum skólamálum. Hann er skyldur til að halda fund einu sinni í mánuði en verður að boða fundinn með minnst viku fyrirvara. Honum er kleift að boða neyðarfund ef það liggur á málefni fundarins. Hann skal einnig hafa seturétt á stjórnarfundum.

3.6.5. Varaformaður Hagsmunaráðs skal ávallt vera jafnfætis formanni í málum Hagsmunaráðs til að vera undirbúinn að taka við hvenær sem er. Hann skal skipuleggja hópefli fyrir ráðið og halda utan um fundargerð ráðsins.

3.6.6. Lýðræðisfulltrúi stendur vörð um lýðræði innan veggja skólans og nemendafélagsins. Hefur seturétt í kosningaráði. Ef verður var við brot á lýðræði eða lögbrot skal fara beint með það til Skólaráðs, formanns nemendafélags og Sífara.

3.6.7. Hagsmunafulltrúar skulu vera auglýstir og vel þekktir sem fulltrúar síns sviðs. Taka alltaf við fyrirspurnum og viðtölum við nemendur og skulu bera þær fyrirspurnir upp til Hagsmunaráðs og ef liggur á skal fara með þær beint til formanns og boða neyðarfund Hagsmunaráðs.

3.6.8. Formaður og Sífari nemendafélags hafa einnig setu og kosningarétt á fundum Hagsmunaráðs.


4. Mæting


4.1. Meðlimir nemendaráðs NFFMOS mega ekki fara undir 70 % mætingu á fundi án þess að eiga á hættu að missa pláss sitt í sinni stöðu. Stjórn NFFMOS fer yfir þau mál og ákveður hvað skuli gera.


5. Fundir


5.1. Skólafundir:

5.1.1. Skólafundir eru æðsta ákvörðunarvald í öllum málum er varða NFFMOS.

5.1.2. Félagsmenn NFFMOS hafa einir viðverurétt á skólafundum.  

5.1.3. Breytingar á lögum NFFMOS fara aðeins fram á skólafundum.

5.1.4. Skólafundur sér um að túlka lög NFFMOS.

5.1.5. Formaður NFFMOS boðar skriflega til skólafundar a.m.k. með tveggja skóladaga fyrirvara. Breytinga- og viðaukatillögur sem ekki hafa borist stjórn NFFMOS klukkutíma fyrir skólafundinn hljóta ekki afgreiðslu á fundinum.

5.1.6. Ákvörðun um að leggja NFFMOS niður er aðeins hægt að taka á löglega boðuðum skólafundi. Leggja má félagið niður ef 2/3 hluti atkvæðabærra fundarmanna greiða tillögu þess efnis atkvæði sitt.

5.2. Stjórnarfundir:

5.2.1. Stjórnarfundir NFFMOS fara með daglega stjórnun NFFMOS. Þeir skulu eigi fara sjaldnar fram en vikulega og skal formaður NFFMOS boða til þeirra.

5.2.2. Stjórnarfundir hafa umboð til ákvarðanatöku í hagsmunamálum félagsmanna milli skólafunda. Allir félagsmenn í NFFMOS hafa tillögurétt á stjórnarfundum NFFMOS.

5.2.3. Stjórn NFFMOS situr stjórnarfundi, þar á meðal formenn nefnda, formaður hagsmunaráðs og nýnemafulltrúi. Félagsmenn í NFFMOS mega sitja fundi í umboði stjórnar NFFMOS.

5.2.4. Stjórnarfundur telst því aðeins gildur að meirihluti stjórnar NFFMOS sitji fundinn.


6. Kosningar


6.1. Kjörgengi og kosningarétt hafa eingöngu félagsmenn í NFFMOS.

6.2. Kosningar skulu vera haldnar á vorin. Þá skal kosið í eftirfarandi embætti: formann, gjaldkera og varaformann. Þá skal einnig kjósa í  þriggja til sex manna stjórnir eftirtalinna nefnda: skemmtinefnd, fjölmiðlanefnd, íþróttanefnd, listanefnd og hagsmunaráð.

6.2.1.  Nýnemakosningar skulu haldnar á haustönn. Þá eru kosnir fulltrúar nýnema í skemmtinefnd, fjölmiðlanefnd, íþróttanefnd og listanefnd. Kjörgengi og kosningarétt hafa eingöngu nýnemar í NFFMOS. Einn af þeim sem verður kosinn af stjórn NFFMOS sem nýnemafulltrúi. Nýnemafulltrúi situr á stjórnarfundum NFFMOS ásamt því að vera í nefnd.

6.3. Útskriftarnemar hafa ekki kjörgengi í vorkosningum.

6.4. Frambjóðandi til stjórnar NFFMOS verður að hafa lokið að minnsta kosti tveimur önnum í skólanum.

6.5. Sami einstaklingurinn má ekki gegna fleiri en einni stöðu sem kosið er til innan NFFMOS í senn. Stjórnarmeðlimir mega stökkva í stöður ef þess þarf, tímabundið.  

6.6. Stjórn NFFMOS skal skipa þriggja manna kjörstjórn, þar af einn formann kjörstjórnar. Kjörstjórn skal annast framkvæmd kosninga og talningu í þeim. Meðlimir kjörstjórnar mega hvorki sitja í embætti innan NFFMOS né vera í framboði til þeirra. Kjörstjórn axlar ábyrgð gagnvart NFFMOS.

6.7. Að minnsta kosti átta skóladögum fyrir kosningar skal auglýst eftir frambjóðendum og eiga skrifleg framboð að hafa borist kosningastjóra fyrir auglýstan framboðsfrest til að teljast gild.

6.8. Kosningalög skulu birt opinberlega í hvert sinn sem auglýst er eftir framboðum í embætti innan NFFMOS.

6.9. Frambjóðendum eða fulltrúum þeirra er heimilt að vera viðstaddir talningu atkvæða í samráði við kosningastjóra.

6.10. Segi stjórn NFFMOS af sér fyrir lok kjörtímabils síns ber henni að efna til kosninga áður en hún lætur af störfum.

6.11. Láti embættismaður/stjórnarmeðlimur nefndar eða stjórnar NFFMOS af störfum fyrir lok kjörtímabils síns, skal stjórn NFFMOS ákveða hverju sinni hvernig staðið skal að ráðningu nýs arftaka hans. Komi ekki framboð til félags eða stöðu í nemendastjórn NFFMOS í vorkosningum, skal halda kosningar í upphafi haustannar. Komi þá ekki enn framboð skal stjórn nemendafélagsins skipa í stöðuna.

6.12. Vanræki embættismaður/stjórnarmeðlimur nefndar eða stjórnar NFFMOS skyldur sínar, skal stjórn NFFMOS víkja honum úr embætti. Embættismaður/stjórnarmeðlimur sem verður fyrir brottrekstri af hendi stjórnar NFFMOS getur lagt fram beiðni að brottreksturinn verði borinn undir skólafund til synjunar og hefur til þess tvær vikur frá brottvikningu. Til að synjun teljist gild þarf 2/3 hluta atkvæða. Leggi embættismaðurinn/stjórnarmeðlimurinn ekki fram beiðni þess efnis innan tveggja vikna eða að synjun er felld á skólafundi stendur ákvörðun nemendastjórnar.

6.13. Ef meira en helmingur meðlima einhverrar nefndar hafa sagt upp störfum þá skal efna til kosninga í viðkomandi nefnd sem fyrst.

6.14. Verði tveir eða fleiri jafnir í kosningum NFFMOS skulu verða aðrar kosningar á milli þessara frambjóðenda.

6.15. Ef auðir seðlar eru hlutfallslega fleiri en greidd atkvæði hæsta frambjóðanda nær hann ekki kjöri. Skal þá innan vikutíma auglýsa eftir nýjum frambjóðendum og halda í framhaldi af því nýjar kosningar. Ef einhver frambjóðandi nær enn ekki kjöri skal nemendastjórn skipa í stöðuna.

6.16. Kosningastjórar skulu birta niðurstöðu kosninga innan 24 klukkustunda eftir að kjörstað lokar að því tilskyldu að um virka daga sé að ræða.

6.19. Þeir aðilar sem taka við embættum innan NFFMOS skuldbinda sig til að fara í einu og öllu eftir lögum nefndarinnar sem í gildi eru hverju sinni.


7. Fjármál


7.1. Allir skráðir nemendur í NFFMOS greiða félagsgjald. Stjórn NFFMOS ákveður félagsgjald.

7.2. Greidd félagsgjöld NFFMOS skulu renna í nemendasjóð ásamt öllum ágóða af starfi nefnda og hópa af skemmtanahaldi. Allar tekjur og gjöld skulu fara um ávísanareikning NFFMOS.

7.3. Innheimta félagsgjalda er í höndum stjórnar NFFMOS í samráði við skrifstofu skólans.

7.4. Ákveði skólafundur að slíta félaginu skuli eignir þess renna til Framhaldsskólans í Mosfellsbæ.


8. Um lög Nffmos


8.1. Stjórn NFFMOS er heimilt að setja reglugerðir um ýmsa þætti starfsemi NFFMOS stangist þær ekki á við þessi lög. Stjórnin skal kynna félögum NFFMOS þær reglugerðir sem hún setur í dreifibréfi innan viku frá setningu þeirra.

8.2. Breytingar á lögum NFFMOS fara aðeins fram á skólafundum. Lagabreytinganefnd hefur þó rétt til að samræma og lagfæra orðalag laga NFFMOS án innihaldsbreytinga, utan skólafunda.

8.3. Lagabreytinganefnd:

8.3.1. Lagabreytinganefnd skipa: Formaður NFFMOS, ásamt einum til þremur félagsmönnum NFFMOS skipuðum af stjórn NFFMOS.

8.3.2. Hlutverk lagabreytinganefndar er að fjalla um allar tillögur að breytingum og viðbótum sem fram koma á lögum NFFMOS og kanna hvort þær brjóti í bága við aðra þætti laga NFFMOS. Þá skal nefndin samræma lögin og breytingatillögurnar með tilliti til þess að lagagreinarnar stangist ekki á. Nefndin skal einnig endurskoða lög NFFMOS fyrir hvern skólafund.

8.3.3. Lagabreytinganefnd skal vinna á lýðræðislegum grundvelli og gæta hlutleysis í hvívetna.

8.3.4. Lagabreytinganefnd hefur rétt til að hafna lagabreytingatillögum og -viðbótum sem hún telur gagnslausar, óþarfar eða beinlínis skaðlegar starfsemi félagsins. Þó má krefjast, með stuðningi a.m.k. 10% félagsmanna NFFMOS, að tillaga sem nefndin hefur hafnað verði borin fram. Nefndinni ber skylda til að hafna tillögum sem brjóta gegn landslögum.

8.4. Hagsmunaráð ber að fara yfir lög nemendafélagsins og koma með tillögu að betrumbættum eða nýjum lögum þar sem það á við.

8.5. Með gildistöku laga þessara falla önnur lög og allar aðrar samþykktir NFFMOS úr gildi.

8.6. Stjórn NFFMOS skal sjá um að lögum þessum sé framfylgt.

8.7. Lög þessi skal endurskoða fyrir hvern skólafund.

8.8. Lög þessi öðlast þegar gildi, 3. nóvember 2015.